Teymisþjálfun og hópmarkþjálfun

beverage-2031238_960_720.png

Upphaflega birt á linkedIn þann 27. janúar 2020.

Orðið teymismarkþjálfun hefur borið á góma í umræðu um markþjálfun hópa og teyma án þess endilega að það sé skýrt hvað orðið nákvæmlega merkir. Mig langar að leggja mitt á vogarskálarnar til að auka sameiginlegan skilning okkar á þessum orðum til að gera orðræðu okkar markvissari um þessi mál.

Hópmarkþjálfun er markþjálfun hóps einstaklinga sem koma saman og eru að skoða saman tiltekið viðfangsefni en samt allir á einstaklingsforsendum. Einstaklingarnir geta því unnið út frá sínum forsendum innan þessa sameiginlega viðfangsefnis og markþjálfi heldur utan um ferlið með aðferð markþjálfunar. Ef viðfangsefnið væri t.d. að efla leiðtogafærni þá gæti ein manneskjan verið að skoða sjálfsstjórn á meðan annar væri að vinna með að kynna framtíðarsýn. Þetta er því samlærdómur en ekki samvinna að tilteknu markmiði.

Orðið markþjálfun er íslensk þýðing á enska orðinu coaching. Þegar við förum að skoða fyrirbærið team coaching í tengslum við orðræðu markþjálfunar þá er alveg skiljanlegt að vilja þýða það sem teymismarkþjálfun. Mig langar hinsvegar að sporna við þeirri orðanotkun og nota frekar orðið teymisþjálfun sem þýðingu á team coaching. Hver er til dæmis munurinn á teymisþjálfun og teymismarkþjálfun? Eftir því sem ég best veit hefur hvorugt verið skilgreint hér á landi svo vel sé og tvö orð því líklegri til að flækja orðræðuna frekar en einfalda.

Teymisþjálfun er annað og meira en markþjálfun og hópmarkþjálfun eins og ég rakti í öðrum pistli. Öflugir teymisþjálfarar eru hinsvegar ansi líklegir til að nýta sér aðferð markþjálfunar, bæði gagnvart einstaklingum teymisins sem og teyminu í heild. Það þýðir ekki að það þurfi að binda "mark" hlutann í orðið að mínu mati og ég tel að orðið teymisþjálfun eigi vel við og vonandi einfaldar það orðræðu okkar um teymi og eflingu þeirra.

Previous
Previous

Teymi og teymisþjálfun