Teymi og teymisþjálfun

Upphaflega birt á linkedIn þann 27. janúar 2020.

Það er að mínu mati löngu kominn tími á að auka og dýpka orðræðuna um teymi og teymisþjálfun hér á landi. Nú er lag, markþjálfunardagurinn að bresta á (30. janúar) og þar er einmitt þema þessu tengt, þ.e. markþjálfun hópa og teyma. Meginmarkmið þessa pistils hjá mér er að efla skilning lesenda á þessum tveimur hugtökum, teymi og teymisþjálfun.

team-150149_960_720.png

Teymi

Byrjum á því að skoða hvað teymi er. Hér er sérlega gagnleg skilgreining, upprunnin að mestu frá Jon Katzenbach og Douglas Smith frá 1993:

Teymi er lítill hópur fólks með mismunandi hæfni sem styður hver við aðra, sameiginlegan tilgang, markmið og sýn á hvernig uppfylla skuli tilganginn, og er samábyrgt fyrir útkomunni.

Þetta er nokkuð löng setning svo við skulum búta hana aðeins niður og skoða hvað liggur undir.

Lítill hópur fólks er í þessu samhengi alla jafna fjöldi á bilinu 3-10. Ef fjöldinn fer í og upp fyrir tveggja stafa tölu þá fer teymisvinnan að missa mátt sinn vegna þess hve samstillingin milli teymismeðlima fer að taka mikla orku og tíma.

Til að takast á við verkefni sem krefjast nýrra leiða og að fleiri en einn komi að til að leysa það, þá skiptir fjölbreytileiki teymisins verulegu máli, að það sé þverfaglegt í stað þess að vera of einsleitt. Þverfaglegt teymi hefur meiri möguleika til að skapa nýjar lausnir heldur en einsleitt teymi, að því gefnu að teymið höndli fjölbreytileikann og samskiptin sem því fylgja. Það er hinsvegar langt frá því að vera gefið að teymi höndli fjölbreytileikann og einnig er hægt að taka fjölbreytileikann hreinlega of langt, t.d. ef fólk nær ekki að stilla sig saman um tilganginn eða grunngildi fyrir teymið (og þá er það í raun ekki teymi skv. ofangreindri skilgreiningu).

Sameiginlegur tilgangur og markmið útskýrir sig að mestu sjálft, þ.e. að við séum raunverulega samstillt um það hvert við sem teymi erum að fara, að hverju við erum að stefna og af hverju. Það er hinsvegar óþægilega oft sú staða að fólk telur sig vera samstíga varðandi tilgang og markmið en þegar betur er að gáð þá birtast ýmsar útgáfur, því teymið hefur ekki tekið alvöru samtal um það.

Hvernig uppfylla skuli tilganginn mætti segja að sé strategían, leiðin að markinu, svarið við spurningunni "Hvernig ætlum við að gera þetta?" Ef teymið er ekki samstillt um leiðina þá er fólk í raun ekki í sama bátnum og fer jafnvel að vinna gegn hvert öðru, mögulega ómeðvitað, mögulega meðvitað. Þessi samstilling þarf að eiga sér stað með reglubundnum hætti, ellegar fer teymið eða hluti þess á endanum út í skurð, þ.e. út af "veginum".

Svo er það samábyrgðin fyrir útkomunni - teymið þarf að hafa það sem til þarf til að geta unnið verkið, uppfyllt tilganginn og markmiðin, annars er því illfært að taka ábyrgðina til sín. Ef einhver upplifir sig ekki bera ábyrgð á útkomunni, ásamt hinum, þá er ólíklegt að framlag viðkomandi verði á pari við framlag hinna. Einstaklingar teymisins verða að finna að þau eru háð hvert öðru til að uppfylla tilganginn, ná markmiðinu.

Teymisvinna, miðað við teymi út frá ofangreindri skilgreiningu, er því margslungin og kallar fram ótal atriði sem þarf að hafa í huga ef vel á að takast til. Fleira kemur til eins og mismunandi líftími, þroskastig og eðli teyma, svo sem stjórnendateymi, vöruþróunarteymi, söluteymi og svona mætti lengi telja. Í næstu pistlum mun ég m.a. skoða hvaða þættir skipta máli fyrir árangursríka teymisvinnu og svo ég leki því nú bara strax að þá mun traust og sálfræðilegt öryggi fá allmikið rými í þeim skrifum, af ríkri ástæðu.

Teymisþjálfun

Markaðurinn hér á landi virðist ekki vera búinn að átta sig almennilega á því hvað teymisþjálfun er og virði hennar, orðræðan er allavega lítil enn sem komið er og fáir aðilar sem gefa sig út fyrir að veita þessa þjónustu. Erlendis fer eftirspurn eftir teymisþjálfun ört vaxandi (heimild: 6th Rider report 2016).

Stysta gagnlega skilgreiningin á teymisþjálfun er að mínu mati eftirfarandi:

Hjálpa teymi að hámarka árangur sinn á sjálfbæran hátt.

Hvernig sá árangur er skilgreindur ræðst af tilgangi teymisins, markmiðunum og skýrleikanum á því hvað felst í að uppfylla tilganginn og ná markmiðunum. Ástæðan fyrir því að ég bæti við "... á sjálfbæran hátt" er að hjálpin sé þess eðlis að teymið geti haldið áfram eftir að þessum tilgangi var náð, m.ö.o. að teymið sé ekki á barmi kulnunar þegar það kemur í mark. Einnig er þetta vísun í að teymið verði ekki of háð teymisþjálfaranum, að það þroskist á þann veg að þörfin fyrir teymisþjálfarann fari minnkandi.

International Coaching Federation (ICF), stærstu alþjóðasamtök markþjálfa í heiminum, eru byrjuð á því að skilgreina teymisþjálfun og hvað þarf til að sinna henni svo vel sé. Þeirri vinnu er alls ekki lokið en á ráðstefnu ICF í Bretlandi síðasta vor var sagt frá þeirri vinnu sem hafin er og eftirfarandi drög að skilgreiningu kynnt:

Teymisþjálfun er samskapandi ígrundunarferli með teymi þar sem bæði skorað er á teymið og það stutt í ákveðinn tíma, til að hámarka eiginleika þess og möguleika á kerfisbundinn og sjálfbæran hátt, svo það nái markmiðum sínum og tilgangi.

Ég læt ensku útgáfuna fylgja með til að efla skil á efnislegu inntaki:

Screenshot 2020-01-24 at 14.08.33.png

Þetta eru einungis drög og ég sé nú alveg tækifæri til kjarnyrðingar 😁. Hér er svo önnur skilgreining erlendis frá sem mér finnst fanga þetta ágætlega:

"Rauntíma inngrip í ferli teymis með það að markmiði að hjálpa teymismeðlimum að ná fram hágæða nýtingu á sameiginlegum auðlindum þeirra.", Wagerman and Hackman 2005.

"Real-time intervention in a team's process intented to help members make high quality use of their collective resources.", Wagerman and Hackman 2005.

Eins og ég nefndi áðan þá er að mörgu að huga til að teymisvinna gangi vel. Það að hjálpa teymi að ná árangri, ná sínum markmiðum og uppfylla sinn tilgang, kallar á allskonar færni. Markþjálfun er sannarlega eitt af þeim tólum sem nýtist gríðarlega vel í teymisþjálfun, bæði einstaklingsmarkþjálfun og hópmarkþjálfun en fleira þarf til. Teymisþjálfun kallar meðal annars á hæfni til að skynja og skilja samskipti teymismeðlima (e. team dynamics), getu til að lóðsa (e. facilitate) vinnustofur og fundi af ýmsum toga, innsæi til að vita hvenær á að stíga inn og hvenær að halda sig til hlés, skilning á samhenginu sem teymið er í, þ.e. í hvaða vistkerfi er teymið (e. systems thinking and organisational development). Til eru ýmis módel og greiningar fyrir heilsu, þroskastig og þróun teyma til að vinna út frá með markvissum hætti. Ég hlakka til að kynna eitthvað af þeim til leiks á næstunni.

Teymisþjálfari þarf því að hafa úr ýmsu að spila þó svo að stærsta verkfærið er hann sjálfur, hans sjálfsþekking, sjálfsvitund og sjálfsstjórn.

Við munum fræðast nánar um þetta á Markþjálfunardeginum og alveg sér í lagi á vinnustofunum tveimur, á miðvikudag og föstudag. Síðar mun ég skrifa nánar um hæfnisþætti teymisþjálfarans.

Previous
Previous

Hvaða þættir skipta máli fyrir árangursríka teymisvinnu?

Next
Next

Teymisþjálfun og hópmarkþjálfun